Fiel-Frodo

Friday, August 25, 2006

Húsverk 101 eftir Dall Heima

Ég vaknaði í morgun um kl ellefu við undarleg hljóð úr eldhúsinu þar sem ég sef. Eftir að hafa fjarlægt gúrkusneiðarnar úr augunum, ýtt dúkkunni minni til hliðar og sparkað sjónvarpinu frá sá ég í rökkrinu afar kunnuglega sjón. Borðtuskan var komin á stjá rétt eina ferðina og var ekki frýnileg fremur venju.

Ég ávarpaði hana karlmannlega og spurði hvurn andskotann hún væri að gera á ferli um hánótt, en fékk ekki svar. Ákvað ég því að rísa úr rekkju og kanna málið nánar. Það tókst. Þegar að var gáð sá ég að tuskan var í óða önn að eðla sig við allhreint sokkapar sem ég hafði lagt frá mér á mitt eldhúsgólfið í einhverju tiltektaræði fyrr í vetur. Þar sem ég var tiltölulega nývaknaður og ekki fengið mér í nefið alllengi fann ég af henni megna angan sem bar lífsvilja íbúanna fagurt vitni. Leist mér illa á blikuna, því að hún hefur löngum verið mér erfið í skauti og kærði ég mig ekki um að hún næði að fjölga sér með sokkaplöggunum.

Eftir að hafa myndað athæfið til að nota gegn henni síðar fór ég að bisa við að koma henni til síns heima, eða í hrærivélarskálina þar sem hennar aðsetur er að öllu jöfnu. Ég byrjaði á því að leggja til hennar með gaffli sem ég fann á sjónvarpinu, og hugðist negla hana fasta við gólfið með snöggu lagi. Það tókst ekki enda íbúar hennar sprettharðir eftir ofeldi af allskonar kræsingum sem ég hafði sullað niður síðustu vikurnar.
Eftir alllanga baráttu höfðu leikar borist víða, og mátti ég heita ofurliði borinn enda dagurinn ekki heppilegur til átaka við forynjur af þessu tagi. Varð mér það til láns þegar hún hafði afvopnað mig að hún sá fyrir tilviljun hálfétna flatbökusneið fasta í videótækinu sem hún fór að hnusa af. Þá sá ég leiðina út úr vandanum og tók til minna ráða.
Ég greip unglega brauðsneið af eldhúsborðinu, lagðist á gólfið og hugðist lokka kvikindið í gott höggfæri. Annað hvort hefur flatbakan verið eldri en brauðsneiðin, eða þá að meinvætturinn hefur grunað mig um græsku, því ekki virkaði þessi aðferð sem skyldi. Eftir að hafa gefið frá mér hljóð eins og léttmyglað hverabrauð drykklanga stund gafst ég upp og stóð á fætur. Hellti ég upp á könnuna og fékk mér rótsterkt mokka til að skerpa hugann, enda hafði ég svosem nógann tíma. Videóið var ekki vant að gefa það eftir það á annað borð vildi taka inn fyrir sínar varir. Laust nú snilldarhugmynd í mitt fagra höfuð.
Flugustöngin mín var bara í seilingarfarlægð, og stóð endinn út úr bakarofninum þannig að ég gat dregið hana til mín án tafar. Með snilldarkasti náði ég að hanka tuskuna á þríkrækjuna og með kröftugri sveiflu að þrykkja henni inn í örbylgjuofninn sem, einhverra hluta vegna, stóð galopinn. Eftirleikurinn var auðveldur, ég setti ofninn á fullt í nokkrar mínútur og fór með Davíðssálm hryggur í bragði yfir því hrannmorði sem átti sér stað inni í ofninum. Endað þannig þessi viðureign.Vona ég að þessi saga megi vekja ykkur til umhugsunar um ýmsar þær aðferðir sem að notum geta komið við nútíma heimilisstörf.
"Dallur Heima"